Fyrir hverja og hvers vegna:
Fyrir alla sem vilja ná meiri skilvirkni í starfi og heildarárangri í lífi.
Úr því þú ert kominn hingað í lestrinum þá er næsta ljóst að þú ert drifinn áfram af metnaði til að gera enn betur en áður og í mjög krefjandi aðstæðum. Þar reynist oft erfitt að halda forgangsröðum og hámarka árangur. Truflun á forgangsröðun dregur úr afköstum og getur leitt til starfsþreytu (burn-out). Stjórnendaþjálfun hjálpar þér við að endurskilgreina markmið þín, gera marksækni hnitmiðaðri og stuðlar að betra almennu jafnvægi í lífinu.
Fyrir nýja stjórnendur.
Nýir stjórnendur sem ráðnir eru til starfa utan fyrirtækis, þurfa á stuttum tíma að setja jákvætt mark sitt á fyrirtækið. Stjórnendaþjálfun getur hjálpað til við að skýra markmið, mynda nauðsynleg tengsl og setja þig inn í menningu nýja vinnustaðarins.
Fyrir stjórnendur á krossgötum.
Breytingar gerast hratt í nútímarekstri og þurfa stjórnendur oft að taka við nýjum ögrunum með stuttum fyrirvara. Sérþekkingin, sem áður var styrkur, nýtist ekki endilega lengur sem slík. Stjórnendaþjálfun skapar hlutlausar aðstæður til að skoða nýjar ögranir frá öllum hliðum og skapa lausnir, sem reynist stundum erfitt í dagsins önn
Fyrir stjórnendur með mikla hæfileika á þröngu sviði.
Stjórnendur eru oft ráðnir vegna sérþekkingar á þröngu sviði, en ekki vegna stjórnunarhæfileika. Stjórnunarnámskeið eru vissulega gagnleg, en þeim til viðbótar veitir stjórnendaþjálfun “hands-on” stuðning við skilgreiningu og lausnir verkefna og vandamála í daglegu vinnuumhverfi, sem, skilar sér beint inn í reksturinn.
Fyrir fyrirtæki og stjórnendur í meiri háttar breytingaferli.
Allar breytingar hafa, auk áhrifa sem óskað er eftir, óæskileg áhrif, jafnvel skaðleg. Í þeim flóknu ferlum sem skapast er auðvelt að missa heildarsýn og týnast í smáskærum. Stjórnendaþjálfun auðveldar breytendum í að halda stefnu og beina kröftum þangað þar sem þeir hafa mest áhrif.
Fyrir teymi og vinnuhópa í þörf fyrir samstillingu.
Það er ekki nóg að hafa ellefu bestu knattspyrnumenn saman í einu liði. Hernaðaráætlun þarf að tryggja samvinnu um leið og að hæfileikar og framtak hvers leikmanns njóti sín. Heildargeta liðsins þarf að verða meiri en summa getu allra leikmanna. Það sama gildir um stjórn fyrirtækja, vinnuhópa og teymi. Samtakamáttur, skapandi hugsun og sveigjanleiki eru lykilorð. Stjórnendaþjálfunin stuðlar að hámarksárangri með því að vinna úr truflandi ferlum innan hóps, þannig að leiðin að lausnum verði greiðari
Fyrir æðstu stjórnendur í þörf fyrir skylmingafélaga (sparring partner).
Einangrun á toppnum er hættuleg, ekki síst vegna tilhneigingar undirmanna að sníða upplýsingar og skilaboð að því, sem þeir telja að yfirmaðurinn vilji heyra, en ekki að því sem hann þarf að vita. Starfsumhverfi sem mótast af þessu eykur líkur á illa upplýstum eða röngum ákvörðunum. Stjórnendaþjálfun nýtist æðstu stjórnendum til að fá hlutlægt endurvarp (objective feedback) á sig, til að varpa ljósi á blinda bletti eða bara til að rökræða í gegnum mál við “the devil´s advocate”.
Hvers vegna?
Með stjórnendaþjálfun má hafa jákvæð áhrif á þætti eins og þessa:
Almennt.
- Hjálpar stjórnendum að breyta eigin atferli og undirmanna með því að fækka mistökum.
- Hámarkar faglega þróun og einstaklingsþroska.
- Kortleggur leiðir til að bæta frammistöðu leiðtoga og stjórnenda
- Dregur úr starfsmannaveltu.
- Hjálpar stjórnendum að ná hraðar tökum á þáttum, þar sem þeir þurfa að bæta sig.
- Leysir æðstu stjórnendur undan því að taka á ónógri frammistöðu undirmanna þar sem stjórnendaþjálfun getur bætt úr.
Að taka á ágreiningi (conflict management); hvað þurfa stjórnendur að skoða:
- Hvaða árekstra og vandamál ertu að glíma við núna?
- Við hverja talarðu um þessi mál?
- Hvaða tilgangi kann það að þjóna fyrir þig að taka ekki afstöðu?
- Hvað þarf að gerast til að þú takir afstöðu?
- Hvað gæti helst hjálpað þér í stöðunni?
- Ef þú tekur ekki afstöðu, eftir hverju myndirðu helst sjá seinna?
- Hvað kostar það þig/fyrirtækið ef þú tekur ekki afstöðu?
Auka áhrifamátt og slagkraft?
- Á hvaða sviði nákvæmlega finnst þér þú ekki hafa þau áhrif sem þú ættir að hafa?
- Við hvern ræðirðu um þetta?
- Hvernig geturðu brugðist við á uppbyggilegri máta til að ná tökum á þeim þáttum, þar sem þér finnst skorta á áhrif þín?
- Hvað gerirðu til skapa þér nýja sýn?
- Hvernig nærð þú að greina hverju þú getur breytt hjá sjálfum þér til að auka eigin slagkraft?
- Kunna viðhorf þín að trufla? Hegðun? Eða það hvernig þú hugsar þessi mál?
Stýring upplýsinga.
Það er algjört lykilatriði í stjórnun að stýra flæði upplýsinga þannig að maður hafi aðgengi að því sem nákvæmlega þarf og ekki meir. Stjórnendaþjálfun getur skerpt þig í að halda fókus í upplýsingaflóðinu og til að spyrja spurninga eins og á eftir fara:
- Hvaða upplýsingum þarf ég á að halda akkúrat núna?
- Hvar fæ ég þessar upplýsingar?
- Hvaða upplýsingum held ég út af fyrir mig, og hvers vegna?
- Hvaða upplýsingum þarf ég að deila með lykilaðilum núna?
- Hvaða afleiðingar hefur það ef ég geri þetta ekki?
- Hvað gott kemur út úr því ef ég geri þetta?
|